8. Bekkjarkvöld

Bjóðum 8. bekk velkomin í garðalund

24.08.2021

Garðalundur ætlar að tileinka fyrstu vikurnar 8. bekk. Bæði til þess að bjóða 8. bekk velkomin í skólann og að aðstoða þau við að læra á félagslífið og skólabraginn. Það skiptir miklu máli að ungmennin finni að þau hafi stað, og fái að taka pláss í félagsmiðstöðinni en ekki síður mikilvægt að þau tileinki sér þær reglur og gildi sem við fylgjum hér svo öllum geti liðið vel. Það er alltaf mikil spenna í hópum þegar þau eru að byrja skólagöngu á haustin og hvað þá í nýjum skóla og félagsmiðstöð í fyrsta sinn.

Til að mæta þessari spennu verða haldin bekkjarkvöld fyrstu vikurnar þar sem ungmennin mæta í félagsmiðstöðina kl 19:00 í kynningu, spjall og hópefli. Eftir kynninguna verður félagsmiðstöðin opin til 22:00 þar sem starfsmenn sýn allt sem Garðalundur hefur upp á að bjóða.

Kynningarkvöld fyrir nemendur 8. bekkjar

8. ALH 25. ágúst

8. ARO 27. ágúst

8. EHR 30. ágúst

8. HK 1. sept

8. KS 2. sept

8. RA 3. sept

8. SR 6. sept

8. SSH 8. sept

8. ÞH 10. sept

Um Garðalund

Félagsmiðstöðin Garðalundur er staður þar sem allir í 8. – 10. bekk eiga að geta fundið eitthvað fyrir sig. Í Garðalundi sameinum við leik og starf og vinnum út frá áhugamálum ungmennanna.

Í Garðalundi er lögð áhersla á að hlusta á ungmennin og að þau fái verkefni sem hjálpa þeim að vaxa og þroskast andlega.

Í Garðalundi er tilfinningum gefið rými og ungmennin fá tækifæri til að læra inn á tilfinningar sínar í ýmsum verkefnum. Áhersla er lögð á að efla félagslega færni í samskiptum sem og að öðlast virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu.

Markmið starfsfólk Garðalundar er að tengjast ungmennunum og búa þannig til umhverfi sem þau geta treyst á og leitað til ef á reynir eða bara til að hafa gaman af lífinu.

Öll þessi vinna fer fram í gegnum okkar fjölbreytta starf svo sem opið hús þar sem ýmist er hægt að fara í þau tæki sem ungmennunum bjóðast hverju sinni, skemmtilega dagskrárliði eða hópa og klúbbastarfinu okkar.

Opið hús

Á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum frá klukkan 19:00 – 22:00 er svokallað opið hús.

Á opnu húsi eru tækin okkar í notkun, billiardborð, borðtennis, fótboltaspil, píla, Playstation, auk þess sem hægt er að framkvæma og gera nokkurn veginn hvað sem okkur dettur í hug innan skynsamlegra marka 😉.

Á þessum kvöldum er einnig dagskrá í gangi flest kvöld sem er skipulögð og framkvæmd af félagsmálavali skólans og starfsmönnum Garðalundar og af og til eru stærri viðburðir.

Stærri viðburðir

Yfir skólaárið stendur Garðalundur fyrir ýmsum stærri viðburðum og tekur einnig þátt í viðburðum með Garðaskóla og Samfés (samtök félagsmiðstöðva á Íslandi). Þar má nefna skemmtanir „böll“ þar sem fram koma landsfrægt tónlistarfólk, rafíþróttamót, skíðaferð, söngleikur, draugahús, skvísukvöld, söngkeppni, danskeppni, fatahönnunarkeppni, leiktækjamót og margt fleira. Markmið þessara viðburða er að lyfta upp anda hópsins og búa til stemningu í skólanum og fyrir félagslífinu.

Klúbba og hópastarf

Yfir veturinn mun Garðalundur standa fyrir ýmsu klúbba og hópastarfi. Markmið klúbba og hópastarfsins er að bjóða upp á fjölbreytt val fyrir ungmennin af skipulögðu tómstundastarfi í öruggu umhverfi. Klúbbastarf er að ýmsu tagi en þar má nefna Nördaklúbbinn, Málarameistarana, ljósmyndaklúbb, fatahönnun og söngleikinn. Starfið einkennist af því að unnið er með ákveðin áhugamál eða þemu. Klúbbastarf er yfirleitt opið og hefur frjálsa mætingu en einhverjar undantekningar eru á því svo sem í söngleiknum og.

Hópastarf verður í boði fyrir ákveðna hópa. Þar eru viðfangsefnin valin út frá hópnum og er þá oft verið að velja einstaklinga í hópastarf til að vinna með félagsfærni, einangrun eða samskipta- og hegðunarvanda. Við hvetjum foreldra til að vera í sambandi ef þeir telja að hópastarf gæti verið fyrir sitt barn en annars eru hóparnir unnir í samstarfi við skólann.


Nördaklúbburinn

Nördaklúbburinn er eitt af stærsta klúbbastarfinu okkar og verður í gangi öll fimmtudagskvöld frá 19:00 – 22:00 en þar er unnið með Dungeons and Dragons, Rafíþróttir, Larp, borðspil, VR og alls kyns „nörda“ hluti.

Upplýsingar og skráning í viðburði

Garðalundur reynir að miðla upplýsingum eins vel og hægt er til foreldra en til að forðast langa pósta í gegnum email höldum við uppi heimasíðunni www.gardalundur.is þar sem allar helstu upplýsingar koma inn og hvetjum við foreldra til að fylgjast vel með hér. Við notumst einnig við Instagramið @Gardalundur þar sem við auglýsum viðburði en við viljum alls ekki ýta undir að ungmennin neyðist til að hafa Instagram til að fá upplýsingar og þess vegna er heimasíðan áreiðanleg og góð. Við auglýsum líka á upplýsingaskjá í matsal skólans og því ættu allir að geta fundið upplýsingarnar um dagskrá Garðalundar auðveldlega.

Þegar það eru viðburðir svo sem böll og bragðarefskvöld sem þarf að greiða fyrir er alltaf skráning í Garðalundi, en þegar það eru stærri viðburðir eins og ferðir fer skráningin í gegnum mínar síður á www.gardabaer.is. Upplýsingar um greiðslur og skráningu verður alltaf kynnt vel fyrir hvern viðburð.

Allar þessar upplýsingar er hægt að finna inn á heimasíðunni okkar www.gardalundur.is

Frekari upplýsingar og fyrirspurnir er hægt að fá með því að senda póst á johnbondd@gardalundur.is

Sími Garðalundar er 5902570