Verklög og leið'beiningar félagsmiðstöðva
Viðbrögð við óviðeigandi hegðun og neyslu nikótíns, áfengis og annarra vímuefna.
Leiðbeiningar fyrir Starfsfólk Félagsmiðstöðva
um viðbrögð við óviðeigandi hegðun og neyslu nikotíns, áfengis og annarra vímuefna
Mikilvægt er að þessar leiðbeiningarnar séu aðgengilegar og öllum kunnar; börnum, unglingum og forráðafólki þeirra. Þá er æskilegt að starfsfólk vísi reglulega til þeirra og annarra viðmiða sem unnið er eftir, t.d. í auglýsingum og skilaboðum til forráðafólks.
Leiðarljós
Starfsfólk hefur að leiðarljósi að tryggja vellíðan og öryggi allra barna og unglinga í starfi sínu. Sú almenna regla gildir að komið sé fram við aðra af vinsemd og virðingu og að allir séu boðnir velkomnir í félagsmiðstöðvastarfið á eigin forsendum.
Samkvæmt lögum má hvorki selja né afhenda einstaklingum yngri en 18 ára nikótínvörur. Þá er óheimilt að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára. Í lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni eru tilgreind þau efni sem eru ólögleg á Íslandi. Starfsfólk félagsmiðstöðva virðir landslög og gilda þau í öllu þeirra starfi. Börnum og unglingum er því óheimilt að hafa slík efni undir höndum í félagsmiðstöðvastarfi. Starfsfólk getur því, ef ástæða þykir til, óskað eftir því að fá að skoða í töskur og/eða vasa í forvarnarskyni og til að tryggja öryggi barna og unglinga í starfinu.
Þegar farið er í ferðir með næturgistingu þurfa börn og unglingar að samþykkja skriflega að fylgja þessum leiðarljósum auk þess sem ávallt þarf að liggja fyrir samþykki forráðafólks fyrir því að börn þeirra fari í ferðina.
Þegar hér er talað um börn er átt við börn og unglinga á aldrinum 10-16 ára og þegar talað er um forráðafólk er átt við forsjáraðila samkvæmt barnalögum.
1. Óviðeigandi hegðun
Í starfinu gildir sú almenna regla að komið er fram við aðra af vinsemd og virðingu. Það getur komið fyrir að barn sé með dónaskap og/eða ljótan munnsöfnuð við starfsfólk og aðra, hendi rusli eða hræki á gólfið, vaði inn á skónum þar sem það er bannað o.s.frv. Starfsfólk þarf að bregðast við slíkri framkomu eða alvarlegri málum, s.s. einelti og/eða líkamlegu ofbeldi. Óviðeigandi hegðun getur verið af margvíslegum toga. Það getur verið um einstakt tilvik að ræða eða síendurtekin.
o Almenna reglan er sú að starfsfólk bregst strax við minniháttar agabroti með því að tala við barnið og áminna það. Væg viðbrögð og úrræði sem félagsmiðstöðvar beita til að halda uppi aga og almennum umgengnisvenjum teljast almennt ekki til stjórnvaldsákvarðana og falla því ekki undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Hið sama gildir þegar barni er vísað brott það sem eftir lifir dags, úr einstökum viðburðum eða úr tilteknu frístundastarfi á vegum félagsmiðstöðvarinnar.
o Ef um síendurtekin og/eða gróf brot er að ræða verður starfsfólk að hafa samráð við forstöðumann félagsmiðstöðvarinnar sem ákveður í samráði við
annað starfsfólk hvernig bregðast skuli við. Ef um síendurtekin eða gróf brot er að ræða verður að kalla til forráðafólk og gera þeim grein fyrir málavöxtum. Ef gripið er til þess ráðs að vísa barni tímabundið úr starfinu er forráðafólki gefinn kostur á að andmæla áður en til þess kemur. Ef ástæða þykir til er leitað eftir samstarfi við aðra fagaðila um ráðgjöf eða faglegan stuðning við barnið.
o Þegar barn brýtur ítrekað félagsmiðstöðvarreglur má vísa því tímabundið úr félagsmiðstöðinni á meðan leitað er lausna, að hámarki í eina viku. Beri slík úrræði ekki árangur og séu brotin mjög alvarleg, s.s. ef þau valda öðrum andlegum og/eða líkamlegum skaða eða eignatjóni, er heimilt að víkja barni ótímabundið úr starfi félagsmiðstöðvar. Brottvísun úr félagsmiðstöð, umfram það sem fellur undir væg viðbrögð og úrræði, skal meðhöndluð sem stjórnvaldsákvörðun. Skal þá fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga um málsmeðferð, þ.m.t. andmælarétt, meðalhóf, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upplýsingaskyldu. Hægt er að leita ráðgjafar á skrifstofu fræðslu- og menningarsviðs um þá málsmeðferð.
o Ef starfsfólk félagsmiðstöðvar metur það svo að háttsemi barns leiði af sér hættu fyrir önnur börn og/eða starfsfólk skal bregðast tafarlaust við. Líkamlegu inngripi skal aðeins beitt í ýtrustu neyð og eingöngu þegar ljóst er að aðrar leiðir duga ekki til að forða barni frá því að skaða sig og/eða aðra eða valda eignatjóni. Starfsfólki er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að barn valdi sjálfu sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Mikilvægt er að starfsfólk vinni ekki eitt við slíkar aðstæður heldur kalli eftir aðstoð samstarfsfólks eða utanaðkomandi aðstoð, s.s. frá forráðafólki eða lögreglu. Skal þess ávallt gætt að ekki sé gengið lengra en nauðsyn ber til í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Láta skal tafarlaust af inngripi þegar hættu hefur verið afstýrt.
o Forstöðumaður ber ábyrgð á atvikaskráningu, þ.e. að sjá til þess að atvik af þessu tagi séu skráð svo og ferill máls og ákvarðanir sem teknar eru í kjölfarið, í samræmi við lög um persónuvernd nr. 77/2000, upplýsingalög nr. 140/2012 og stjórnsýslulög nr. 37/1993. Atvikaskráning skal fela í sér lýsingu á aðdraganda, atvikinu sjálfu og mati á þeirri hættu sem skapast hefði af athafnaleysi.
o Forstöðumaður félagsmiðstöðvar tilkynnir þeim aðilum um brotið sem tilkynna ber samkvæmt vinnureglum starfsstaðar, s.s. deildarstjóra og sviðstjóra. Í sumum tilvikum tilkynnir forstöðumaður brotið beint til sviðstjóra sem sér svo um að koma upplýsingum til þar til bærra aðila, t.d. barnaverndar. Gæta ber að reglum sem gilda um miðlun persónuupplýsinga.
2. Áfengi og önnur ávana- og fíkniefni
Neysla áfengis og annarra ávana- og fíkniefna er óheimil í starfi félagsmiðstöðva. Ef grunur er um að barn sé drukkið eða undir áhrifum slíkra efna í starfi félagsmiðstöðvar eða það reynir að koma í starfið drukkið og/eða undir áhrifum slíkra efna skal brugðist við með eftirfarandi hætti:
o Barnið er beðið um að fylgja starfsfólki afsíðis þar sem það er upplýst um grun starfsfólks um neyslu vímugjafa, málin rædd og barnið upplýst um næstu skref.
o Hringt er í forráðafólk og ef grunur er um neyslu ávana- og fíkniefni er að ræða er einnig haft samband við lögreglu. forráðafólk er beðið um að sækja barnið og farið yfir vinnuferlið og næstu skref þegar forráðafólk kemur á staðinn.
o Ef barn er með áfengi er það tekið í vörslu félagsmiðstöðvarinnar. Þegar forráðafólk kemur að sækja barnið er því gerð grein fyrir því að barnið hafi verið með áfengi.
Starfsmaður býður forráðafólki að taka áfengið eða býðst til að hella því niður í lok kvölds. forráðafólk eiga valið.
o Ef barn er talið vera undir áhrifum annarra vímuefna en áfengis eða þá að meint fíkniefni eru gerð upptæk skal haft samband við lögreglu. Næstu skref eru tekin í samráði við lögreglu.
o Innan viku skal fara fram samtal milli barns og starfsfólks, með eða í nánu samráði við forráðafólk. Reynt er að finna leiðir til að virkja barn í starfi félagsmiðstöðvar við uppbyggileg og sjálfseflandi viðfangsefni eða þá að barni er vísað úr starfinu í vikutíma ef engar aðrar lausnir finnast. forráðafólki er gefinn kostur á að andmæla ákvörðun um brottvísun áður en til hennar kemur.
o Forstöðumaður getur synjað barni um að sækja félagsmiðstöð tímabundið þegar grunur er um að það sé undir áhrifum vímuefna á félagsmiðstöðvartíma og/eða það stuðlar að dreifingu slíkra efna meðal barna. Heimilt er við slíkar aðstæður, að höfðu samráði við forráðafólk, að láta þar til bæra aðila meta reglulega ástand barnsins og meina því að sækja félagsmiðstöðina þar til fyrir liggur að það sé ekki lengur undir áhrifum vímuefna.
o Ef um brottvísun úr starfinu er að ræða getur barn ekki tekið fullan þátt í starfi félagsmiðstöðvar fyrr en farið hefur verið yfir skilyrði fyrir áframhaldandi þátttöku. Jafnframt skal upplýsa forráðafólk um hvenær og með hvaða skilyrðum barn þeirra getur aftur tekið þátt í starfinu.
o Forstöðumaður félagsmiðstöðvar tilkynnir þeim aðilum um brotið sem tilkynna ber samkvæmt vinnureglum viðkomandi starfsstaða, s.s. deildarstjóra og framkvæmdastjóra sem sjá um að koma upplýsingunum til þar til bærra aðila, t.d. þjónustumiðstöðvar eða barnaverndar eftir eðli máls. Gæta ber að reglum um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga.
o Við meðferð framanritaðra brottvísunarmála og beitingu viðurlaga vegna þeirra skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga, þ.m.t. andmælaréttar, meðalhófs, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upplýsingaskyldu.
3. Nikótín
Með nikótínvörum er hér átt við sígarettur, nef- og munntóbak, rafrettur og tóbakslíki, nikótínpúða og aðrar vörur sem innihalda nikótín. Nikótínvörur eru ekki leyfilegar á lóð félagsmiðstöðva, við útidyr, í húsnæðinu eða annars staðar þar sem félagsmiðstöðvastarf fer fram. Viðbrögð við nikótínnotkun eru eftirfarandi:
o Ef barn er staðið að nikótínnotkun á lóð eða við útidyr er því gerð grein fyrir því að það er ekki að virða þær reglur sem gilda í félagsmiðstöðvarstarfinu og að haft verði samband við forráðafólk. Starfsmaður metur hvort ástæða sé til að vísa barninu á brott úr starfinu það sem eftir er dags/kvölds. forráðafólk er upplýst með símtali um brot á reglum.
o Ef barn er staðið að nikótínnotkun í húsnæði félagsmiðstöðvarinnar eða í starfi á vegum félagsmiðstöðvar er því gerð grein fyrir að það er ekki að virða þær reglur sem gilda í félagsmiðstöðvastarfinu. Hann/hún fær tiltal og forráðafólk er tilkynnt um brotið. Meta skal í samráði við forráðafólk hvort barni verði vísað tímabundið úr starfinu finnist engar aðrar lausnir. forráðafólki er þá gefinn kostur á að andmæla þeirri ákvörðun áður en til hennar kemur.
o Við meðferð brottvísunarmála og beitingu viðurlaga vegna þeirra skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga, þ.m.t. andmælaréttar, meðalhófs, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upplýsingaskyldu.
o Ef barn er með nikótín er það tekið í vörslu félagsmiðstöðvarinnar. Barn er látið vita af því að haft verði samband við forráðafólk og það upplýst um málið. forráðafólk getur sótt nikótínið eða samþykkt að starfsfólk fargi því. forráðafólk eiga valið.
o Ef um ítrekuð nikótínbrot er að ræða þarf starfsfólk að meta stöðuna og gera samning við barn með það fyrir sjónum að virkja það inn í starf félagsmiðstöðvarinnar án nikótíns. Forráðafólk skal ávallt vera upplýst um þær ákvarðanir sem teknar eru. Það sama gildir varðandi nikótínbrot og ef um áfengisneyslu er að ræða, þ.e. innan viku skal fara fram samtal milli barns og starfsfólks í nánu samráði við forráðafólk barns.
o Forstöðumaður félagsmiðstöðvar tilkynnir þeim aðilum um brotið sem tilkynna ber samkvæmt vinnureglum starfsstaðar, s.s. deildarstjóra og sviðstjóra. Í sumum tilvikum tilkynnir forstöðumaður brotið beint til sviðstjóra sem sér svo um að koma upplýsingum til þar til bærra aðila, t.d. barnaverndar. Gæta ber að reglum sem gilda um miðlun persónuupplýsinga.
4. Ef ástæða þykir til óskar starfsfólk eftir að fá að skoða í töskur og/eða vasa í forvarnarskyni og til að tryggja öryggi barna og unglinga
Ef það er faglegt mat starfsfólks að nauðsynlegt sé að skoða í töskur og vasa barna, s.s. á fjölmennum böllum, fyrir ferðir eða á öðrum stærri viðburðum, er mikilvægt að gæta meðalhófs og jafnræðis og að sama verklag gildi fyrir allan hópinn. Einnig þarf að óska eftir munnlegu samþykki hjá hverjum og einum áður en slík skoðun fer fram.
o Með þessu er fyrst og fremst leitast við að fyrirbyggja að börn séu með áfengi, fíkniefni eða nikótín í starfi félagsmiðstöðvanna.
o Dæmi um annað sem óæskilegt er að börn hafi undir höndum í félagsmiðstöðinni eru t.d.; hnífar eða vopn, tag-pennar, spreybrúsar, kveikjarar eða eldspýtur. Í slíkum tilvikum óskar starfsfólk eftir að fá viðkomandi hluti til varðveislu. Haft er samband við forráðafólk ef um óleyfilega hluti er að ræða, s.s. nikótín og áfengi og lögreglu ef um er að ræða fíkniefni, ólöglega hnífa eða önnur vopn.
o Ef ekki fæst samþykki barns fyrir skoðun í töskur/vasa eða fyrir því að fá að geyma óæskilega hluti getur verið nauðsynlegt að meina því aðgang að félagsmiðstöðvarstarfinu. Faglegt mat starfsfólks ræður því í hvaða tilvikum þarf að hafa samband við forráðafólk. Ef ástæða þykir til, t.d. ef um ógnandi hegðun er að ræða, þarf mögulega að hafa samband við lögreglu.
Gott er fyrir starfsfólk að hafa í huga eftirfarandi lög og reglur í þessu samhengi:
o Í meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“
Sú ákvörðun sem starfsfólk tekur verður samkvæmt þessu að vera til þess fallin að ná því markmiði sem stefnt er að (t.d. öryggi fyrir aðra unglinga og/eða vímuefnalausri skemmtun) og ef val stendur um margar leiðir þarf að velja leið eða úrræði sem veldur sem minnstri röskun á hagsmunum barnsins. Ekki skal beita meira íþyngjandi úrræði en nauðsynlegt er hverju sinni.
o Í lögum nr. 33/1944 um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir:
„71. grein – Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leita í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild.“
„72. grein – Eignarétturinn er friðhelgur.
Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“
Starfsmenn skulu hafa að leiðarljósi að verklag þegar skoðað er í töskur og annað eftirlit standist þær kröfur sem leiða af stjórnskránni um friðhelgi einkalífs. Mikilvægt er að stíga varlega til jarðar í þessu samhengi og fá alltaf samþykki hjá barni áður en skoðað er í töskur og/eða vasa og fengið leyfi fyrir því að geyma tímabundið óæskilega hluti sem barn er með á sér.
Starfsfólk – athugið!
Þegar unnið er með viðkvæmar trúnaðarupplýsingar ber starfsfólki skylda til að gæta þagmælsku, sbr. 6. grein í siðareglum starfsmanna Reykjavíkurborgar, og hafa í huga að virða ber þagnarskyldu þótt látið sé af störfum. Þagnarskylda felur í sér að málefni einstakra barna eru ekki rædd utan veggja félagsmiðstöðvarinnar og eingöngu á fundum þar að lútandi innan félagsmiðstöðvarinnar. Þá skulu starfsmenn einnig taka mið af lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.
Við undirritun ráðningarsamnings er um leið verið að samþykkja ráðningarskilmála og siðareglur. Í sumum tilfellum undirritar starfsfólk sérstaka trúnaðaryfirlýsingu samhliða ráðningarsamningi þar sem þagnar- og trúnaðarskyldan er ítrekuð.
Þá ber að hafa í huga að tilkynningarskyldan samkvæmt Barnaverndarlögum nr. 80/2002 gengur framar ákvæðum laga um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta (sbr. 17. gr.) þ.e. að starfsfólki er skylt að tilkynna til viðeigandi aðila ef það verður vart við eða hefur grun um slæman aðbúnað eða óviðunandi misfellur í uppeldi eða aðbúnaði barna og/eða telur að börn séu að stofna heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu (sjá nánar um barnavernd í starfsmannahandbók félagsmiðstöðva).